Haustverkin jafnt og þétt að vinnast, skólinn byrjaður og allt er komið á fullt. Réttir framundan og smalamennskur í sveitinni. 🙂
Í haust molanum ætla ég að segja ykkur frá heimsókn í Framhaldsskólann á Tröllaskaga og í FNV á Sauðárkrók. Einnig frá nokkrum nýjum atriðum sem ég hef fundið og gætu verið sniðugir. Vangaveltum um námsumsjónarkerfi ofl.
Heimsókn norður í land.
Sunnudaginn 10. september keyrði ég ásamt 3 kennurum úr ML norður á Ólafsfjörð og fengum þar gistingu á Kaffi Klöru sem er í gamla pósthúsinu. Að morgni 11. september fengum við morgunmat hjá Idu, staðarhaldara á Kaffi Klöru sem er jafnframt spænskukennari í Menntaskólanum á Tröllaskaga.
Í frábæru veðri röltum við svo út í skóla og þar tók Lára skólameistari á móti okkur. Í stuttu máli sagði hún okkur frá skólanum og við spurðum og að lokum var okkur boðið að sitja faggreinafund þar sem hin fyrrnefnda Ida var með mjög fróðlegt innlegg um þau tæki sem hún notar við spænskukennsluna.
Má þar nefna t.d. Duolingo, Quizlet og Screencastify, sem er viðbót í Google Chrome til að taka upp skjáinn, nánar um þessi verkfæri hér að neðan.
Við komum margs vísari úr þessari heimsókn en eftir hádegið var haldið á Sauðárkrók. Þar tóku stærðfræði kennarar í FNV á móti okkur og fengum við að heyra um þeirra hugmyndir um kennslu í stærðfræði og einnig skoðuðum við verknámshúsið þeirra og þar inni Fab Lab. Það var einnig mjög skemmtileg heimsókn.
Kærar þakkir fyrir að taka á móti okkur.
Vangaveltur um LMS eða námsumsjónarkerfi.
Við í ML höfum verið með námsumsjónarkerfið Moodle og hefur það gengið vel. Ég hef einnig verið að skoða Microsoft Classroom (sem núna er aflagt) og Microsoft Teams sem tók við af Classroom. Einnig hafa kennarar verið að nýta sér möguleika OneNote Class í kennslu, OneNote Class er ekki námsumsjónarkerfi og mun aldrei koma eitt og sér í staðinn fyrir slíkt, en það er hægt að tengja það við bæði Moodle og Microsoft Teams og er þá kominn öflugt samstarf nýrri og eldri og þekktari kerfa.
Ég mun núna á næstu vikum leitast við að ná þessari tengingu á milli Moodle og O365 og verður spennandi að vita hvort sú tilraun beri árangur. Til að glöggva sig á þessu er gott að sjá hvað það er sem mun tengjast saman, en hér er grein sem fer yfir þessa hluti.
Einnig er ágætis myndband um tengingu OneNote og Moodle hér, en það er bundið við það að búið sé að setja upp grunntengingu milli Moodle og O365.
Meira um þetta síðar.
Sniðug forrit.
Duolingo er vefsíða eða vefsvæði sem býður uppá ókeypis tungumálakennslu. Mjög sniðugt hjálpartæki í kennslunni og þar er hægt að búa til hópa og setja markmið fyrir nemendur til að vinna að.
Quizlet er mjög gott hjálpartæki fyrir kennslu almennt. Gott til ýtarefnis og dýpri skilnings á kennsluefninu. Spurningar, samtengingar, krossapróf, mannslíkaminn og spjöld.
Screencastify er viðbót í Google Chrome sem hægt er að nota til að taka upp skjávideó og tal. Hentar vel í vendikennsluna.
Flipgrid er ókeypis forrit sem ég rakst á og er notað til að kasta fram spurningu og nemendur svara með stuttu vídeói. Alveg þess virði að prófa. Hægt að fella inn i Teams og OneNote.
Hér er sýnishorn af spurningu sem væri gaman að fá svar við 🙂 https://flipgrid.com/ e206bc